Sönghefti

6. ágúst 2019 —

1. Internationalinn (L'Internationale)

Fram þjáðir menn í þúsund löndum,
Sem þekkið skortsins glímutök.
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
Boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum.
Bræður fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

:,: Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd.
Því Internationalinn
mun tengja strönd við strönd:,:

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð.
Nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst.
Ánauð þolir hugur vor trautt.
Og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt.

:,: Þó að framtíð sé falin...

Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir.
En auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, þiggjum ekki af náð.
Látum, bræður, réttlætið því ráða
svo ríkislög vor verði skráð.

:,: Þó að framtíð sé falin...

- - - - -

En auðmennirnir aðeins hafa
það eitt að marki hverja stund.
Allt fémætt taka þeir án tafa
til að drýgja eigið pund.
Þeir hafa farið um með eldi
og eignir gripið höndum tveim.
En þegar hrynur þeirra veldi
þá þýfinu mun skilað heim.

:,: Þó að framtíð sé falin...

Til stríðs þeir okkur vilja egna.
Í ánauð leggja bræðraþjóð.
Við munum herstjóranum hegna.
Hans skal eigið renna blóð.
Innan hersins upp við munum rísa.
Upp skal renna friðartíð.
Og réttlætið mun veginn vísa
og verða tryggt hér ár og síð.

:,: Þó að framtíð sé falin...

Með samstöðu í sveit og bæjum
við sigra munum græðgi og neyð.
Með sigrinum við sáum fræjum
sem að varða nýja leið.
Ránfuglanna ríki nú mun falla.
Á rústum þess við byggjum nýtt.
Vil látum gyllta lúðra gjalla.
Af gleði sólin brosir hlýtt.

:,: Þó að framtíð sé falin...

Lag: Pierre De Geyter
Texti: Eugene Pottier
Íslenskun: Sveinbjörn Sigurjónsson, Þorvaldur Þorvaldsson

2. Bræður til ljóss og til lausnar

Bræður til ljóss og til lausnar
laðar oss heillandi sýn.
Fögur mót fortíðarmyrkrum
framtíðin ljómandi skín.

Endalaus milljónamóða
máttug úr nóttinni brýst.
Þrár ykkar himninum hærra
hrópa, því nóttin er lýst.

Bræður hver hönd tengist höndum.
Hlægir oss dauði og níð.
Hlekkir að eilífu hverfa.
Heilagt er síðasta stríð.

Lag: rússneskt þjóðlag
Texti: Aðalbjörn Pétursson

3. Dagur draums og vona

Dagur draums og vona
dafnar brátt á jörð.
Slitin karl og kona
kjaga yfir svörð.
Í suðri fer á fætur
fögur sól og hlý.
Studd af striti nætur
stígur veröld ný.

Forsmán fantaklíku
fengum við um stund.
Af hörku hinna ríku
hert var þrældómslund.
Sveitt af djúpum sorta
söngrödd fólksins dó.
Af heimsku hlaut að gorta
hann sem þrælinn sló.

Greindi andi okkar í
augum dáð og dug.
Hófu heimsins flokkar
hugsjónir á flug.
Um götur þrælar gengu
gegnum bitra nauð.
Með striti steina fengu
í staðinn fyrir brauð.

Andi minninganna
eflir bræðralag.
Næturböl skal banna,
birtan vekur dag.
Ef svífur sortans vandi
í sína hinstu ferð.
Þá lifir þjóð á landi
af ljóssins guði gerð.

Móðir grátið getur
og gefið börnum skjól.
Af dögg  mun blómgast betur
blóm sem áður kól.
Tár sem vanga væta
víst fá jarðveg bætt.
Okkar guð mun gæta
gleðja hverja ætt.

Herrann veill af heimsku
af hörku barði menn.
Vill nú vel með gleymsku
verja hlut sinn enn.
En upp má aftur byggja,
örbirgð hverfa skal.
Með harm skal heygður liggja
hann sem öllu stal.

Náð og miskunn mætast
er magnast ljósið rautt.
Með réttu draumar rætast,
ranglætið er dautt.
:,: Karlmaður og kona
kraftmikil og hörð.
Dagur draums og vona
dafnar brátt á jörð.:,:

Lag: S. Bregendahl
Texti: Martin Andersen Nexö
Íslenskun: Kristján Hreinsson

4. Eftir orrustuna við Rio Jarama (In dem Tal dort am Rio Jarama)

Þar sem rennur hún Rio Jarama
fram um rósanna grösugan dal,
:,: stóð sú hríð er á helvegu sendi
okkar hraustasta ungmennaval :,:

Gefðu ráð hvernig gott er að sigrast
Með gömlum rifflum á skriðdrekasveit.
:,: Eða um hitt hvernig hægt er að forðast
í opnu haglendi flugvélaleit. :,:

Já, við urðum að hopa á hæli,
þetta harðsnúna margreynda lið.
:,: En enginn í Interbrigada
hefur æmt eða beðið um grið.:,:

Nei, við stóðumst ei stálinu snúning,
né það stórskeyta- og sprengjanna él.
:,: Okkur tókst þó með tárum og blóði
að tefja fasismans morðingjavél.:,:

Sendum, félagar, síðustu kveðju
þeim er sofa hér eftir í dag.
:,: Aftur komum þó senn campesinos,
til að kveða þar sigursins brag.:,:

Lag: Red River Valley (vestur-bandarískt þjóðlag)
Texti: Ernst Busch
Íslenskun: Eyvindur P. Eiríksson

5. Samþykkt kommúnardanna (Resolution der Kommunarden)

Þar sem þið á okkur lögðuð hlekki:
Lög sem tryggja ykkar eignarrétt.
Hér og nú við samþykkjum að virða ekki
lengur þrælalögin sem þið hafið sett.

Viðlag:
Þar sem ykkur þykir hér við hæfi
að hóta oss með kúlnahríð.
Samþykkt er: við hræðumst þessa hundaævi
meira en okkar dauðastríð.

Þar sem okkur meinað er að njóta
þeirra matvæla sem skópum við.
Samþykkt er: í gegnum rúðugler má brjóta
leið að brauðinu og fylla tóman kvið.

Viðlag

Þar sem víst er nóg um hús og hallir.
En úti hýrumst við með bláa kinn.
Samþykkt er: í ljósi þess við ætlum allir
ekki að skjálfa meir en flytja okkur inn.

Viðlag

Þar sem ykkur, þó þið notið klæki,
varla tekst að gera okkur sátt.
Við yfirtökum verksmiðjur og fyrirtæki
og laus við ykkur rekum þau á eiginn hátt.

Viðlag

Í því ljósi að ekkert af því stendur
sem yfirvöldin hafa sett á blað.
Þá við tökum stjórnina í eigin hendur
svo við búum okkur hérna betri stað.

Viðlag

Þar sem þið víst skiljið þetta eina
tungumálið sem er kúlnaregn.
Samþykkt er: að nauðsynlegt er nú að beina
fallbyssunum ykkur gegn.

Lag: Hanns Eisler
Texti: Bertolt Brecht
Íslenskun: Þórarinn Hjartarson

6. Staurinn (L'Estaca)

Við Siset einn morgun sátum.
Saman við töluðum lágt.
Bílana greint við gátum
geysast í hver sína átt.

Sérð’ ekki staurinn sagð’ann
sem allir hlekkjast nú við.
Fyrr en við fáum hann lagðan
við frelsið við göngum á snið.

Viðlag:
Ef allir toga steypist hann.
Nú innan skamms hann velta kann.
Látum hann falla, falla, falla.
Fúi nær gegnum staurinn þann.
Ef að þú tekur fastar í
þá mun ég taka fastar í.
Þá skal hann falla, falla, falla
og loks við verðum frjáls og frí.

Við erfiði ævin líður.
Ekki er tíminn kyrr.
Í sárum á höndum svíður
en samur er staurinn sem fyrr.
Staurinn er staður og þungur
og stendur þótt fast togum við.
Þú sem að ennþá ert ungur
ættir að leggj’ okkur lið.

Viðlag.

Nú rödd hans er hætt að hljóma
og heyrist ei lengur hans mál.
Ég finn það samt enduróma
hið innra og magnast í bál.
Þann söng sem að Siset forðum
söng bæði morgun og kvöld
Ég syng með hans eigin orðum
og undir tekur nú fjöld.

Viðlag.

Lag og texti: Lluis Llach
Íslenskun: Þorvaldur Þorvaldsson

7. I natt jag drömde (Last Night I Had the Strangest Dream)

I natt jag drömde något som
jag aldrig drömt förut.
Jag drömde det var fred på jord,
och alla krig var slut.

Jag drömde om en jättesal
där statsmän satt i rad.
Så skrev dom på et konvolut
och reste sig och sa:

“Det finns inga soldater mer,
det finns inga gevär.
Och ingen känner längre till
det ordet militär”.

På gatorna gick folk omkring
och drog från krog till krog.
Och alla drack varandra till
och dansade och log.

I natt jag drömde något som
jag aldrig drömt förut.
Jag drömde det var fred på jord
och alla krig var slut.

- - - - -

Se’n vakna’ jag och såg omkring
på orätt krig och nöd.
Ty sanningen är att vårt blod
har gjort vår fana röd.

Vår kamp vill pågå länge änn,
för rättvisa och för bröd.
Till dess att kapitalets makt
ligger framför oss död.

Vi reser oss och ta’r vår rätt,
och du skall vara med.
Till slut då kann förverkligas
vår gamla dröm om fred.

Lag og texti: Ed McCurdy
Sænskun: Cornelis Vreeswijk

8. Fram allir verkamenn (Bandiera Rossa)

Fram allir verkamenn
og fjöldinn snauði.
Því fáninn rauði, því fáninn rauði.
Fram allir verkamenn
og fjöldinn snauði.
Því fáninn rauði okkar merki er.

Því fáninn rauði okkar merki er!
Því fáninn rauði okkar merki er!
Því fáninn rauði okkar merki er!
Lifi kommúnisminn
og hinn rauði her!

Avanti popolo, alla riscossa,
bandiera rossa, bandiera ross.
Avanti popolo, alla riscossa,
bandiera rossa trionfera.

Bandiera rossa, la trionfera!
Bandiera rossa, la trionfera!
Bandiera rossa, la trionfera!
E viva il comunismo e la liberta!

Lag: ítalskt þjóðlag
Texti: Carlo Tuzzi
Íslenskun: ókunnur (birtist í Verkamanninum, 36. tbl., 01.05.1931)

9. Við byggjum landið (Красная Армия всех сильней/Белая армия, чёрный барон)

Við erum fólkið sem erfiðar enn,
alþýðan fátæka, konur og menn.
Bæi við reisum og sækjum á sjó,
sveitumst og streitumst
við hamar og plóg.

:,: Við erum frjókornin,
leyndarmál landsins.
Landið er vort með hreinan skjöld.
Gegnum allt myrkrið
við bljúg það bárum.
Berum það fram á nýja öld.

Lag: Samuil Pokrass
Texti: Jóhannes úr Kötlum

10. Dögunin bíður (Kampens Väg)

Vegurinn liggur víða um slóðir,
vegurinn liggur um arðrænda jörð,
um land þar sem þegnarnir eru svo óðir
því ennþá er baráttan langvinn og hörð.
Dögunin bíður, dagurinn góður,
dreyri mun renna um brennandi svörð.
Þú auðvaldsins herra í útlegð munt senda 
sem arðrændu þig er þeir seldu þér brauð.
Með samtakamætti mun örbirgðin enda
og öll verður gatan þín rauð.

Jörðin mun nærast á byltingarblóði
og blómin af svitanum hljóta sinn mátt.
Með kröfur á lofti mun lýðurinn óði
leiðtoga auðvaldsins brjóta í smátt.
Dögunin bíður, græðginnar gróði
skal gefinn þeim snauðu og fólk verður sátt.
Mót algjörum sigri skal alþýðan halda
sem áður fyrr sýndist svo máttlaus og dauð.
Byltingin okkar mun brjótast til valda
og birtan mun verða svo rauð.

Blóðið er rotið í höggormsins hjarta
sem hervaldi beitti og kúgaði lýð.
Aldrei má málpípa auðvaldsins skarta
þeim orðum að græðgin sé fögur og blíð.
Dögunin bíður, dögunin bjarta,
af dirfsku mun lýðurinn heyja sitt stríð.
Tíminn mun líða og tár munu flæða.
Titra af bræði mun alþýðan snauð.
Með frelsi að vopni mun fylkingin æða
og fánar og spjöld verða rauð.

Hjá arðrændu fólki mun öldurnar lægja
svo eyðast með tímanum bölvun og hryggð.
Valdi skal dreifa og vopnin skal fægja
með visku og tárum, með elju og dyggð.
Dögunin bíður, þá ríku skal rægja
og rífa þá höll sem af græðgi var byggð.
Í sátt munu lifa elli og æska
því alþýðan losnar við kúgun og nauð.
Bölinu eyða þá birta og gæska
því byltingarstjarnan er rauð.

Þær einlægu kröfur mun alþýðan skrifa
sem arðráni böðlanna vísar á bug.
Og öreigastéttin hún á því mun klifa
að íslenska þjóðin hún sýni hér dug.
Dögunin bíður, ljósið mun lifa,
lýðræðishugmyndir fara á flug.
Ranglæti foringjans ríka og digra
sem reist hefur hallir og dregið sér auð
mun víkja því hugsjónin hlýtur að sigra
og heimsbyggðin öll verður rauð.

Lag og texti: Dan Berglund
Íslenskun: Kristján Hreinsson

11. Rödd byltingarinnar (Revolusjonens røst)

Gef mér þann hreina, hrausta,
hugdjarfa, sterka mann
með þolgæði þrek og vilja
er þrátt fyrir kvöl og bann
berst fram í bleikan dauðann
að brjóta mér leið – gef mér hann.

Gef mér þær hyggnu hetjur
sem hylla min raunveruleik.
Þeirra sem vita ég þarfnast meir
en þess sem trúði – og sveik.
Loforð um kærleika léttvæg ég met
sem letruð í sand og reyk.

Gef mér þá bitru beinu
sem blikna við enga sýn
sem þrá enga dulspekidrauma
því dagsins sherlúður hvín.
Skapið guðlausan himin hér,
þar hamingjusólin skín.

Gef mér þau heitustu hjörtu
sem harmar fá aldrei þreytt
og ístöðuleysi og efi
fá aldrei til hvíldar leitt.
Sem brosa mót sigri og ósigri eins
og æðruorð þekkja ei neitt.

Ég bið aðeins um þá bestu
og bræður, ég gef ykkur allt.
Enginn fær séð fyrr en sigrað eg hef
í sannleik hve mikið ég galt.
Já, gef mér það besta hin blóðskírða jörð 
mun borga það þúsundfalt.

Lag: Toril Brekke
Texti: Rudolf Nilsen
Íslenskun: Aðalbjörn Pétursson

12. Heyr gammana fljúga (Le Chant des partisans)

Heyr gammana fljúga
gínandi bráð sinni yfir.
Heyr hrópin á hjálp
frá því fólki er við ógnina lifir.
Kom verkamenn bændur
og skæruliðar fram til að berjast.
Það verður þeim dýrt
sem að láta oss undir okinu merjast.

Úr námum, af ökrum,
félagar fylkjum nú liði.
Við grípum til vopna
gegn þeim sem að firra okkur friði.
Verið nú tilbúnir
vélbyssunni í skotstöðu að stilla.
Ei líður á löngu
þar til gnýrinn loftið mun fylla.

Við frelsum þá bræður
sem ennþá í fangelsum bíða.
Vort hatur og neyð
hefur kennt oss til sigurs að stríða.
Það eru til lönd
þar sem fólk má sofa rólegt um nætur.
En við megum berjast
og deyja kannski fyrr en oss lætur.

Hjá okkur veit hver
hvað hann vill þegar örlögin kalla.
Og nýir menn hlaupa
í skarð fyrir þá sem að falla.
Í dagrenning þurrkar upp
morgunsólin blóðflekki af vegi.
Við hefjum upp söng
því nú lýsir af frelsisins degi.

Lag og texti: Anna Marly
Frönskun: Maurice Druon og Joseph Kessel
Íslenskun: Þorvaldur Þorvaldsson

13. Hanarnir tveir (Gallo Rosso, Gallo Negro)

:,:Heyrist gal hanans svarta
verður dimmt og deginum lýkur:,:
:,:En er rauða hanans glymur gal
þá glaðnar og nóttin víkur:,:

Syng, enginn mun heyra.
Taktu vindur minn söng sem engu nær eyra.
Syng, hvað get ég meira?
Vindinum eigna ég söng minn sem engir heyra.

:,:Og þeir mættust í hólmgöngu harðri,
í húfi var líf eða dauði:,:
:,:Svarti haninn með spora og hlíf,
en hugrekkið eitt sá rauði:,:

Syng, enginn mun heyra...

:,:Svarti hani hrósaðu sigri,
þú veist ekki dóm þinn að vonum:,:
:,:Sá rauði að síðustu sigra mun
því sólin stendur með honum:,:

Syng, enginn mun heyra...

:,:Svarti fugl flærðar og svika,
frá gulli er kominn þinn kraftur:,:
:,:En rauði haninn þig hræðist ei,
þið hittist fljótlega aftur:,:

Syng, enginn mun heyra...

Lag og texti: Chicho Sánchez Ferlotio
Íslenskun: Þórarinn Hjartarson

14. Heitstrenging

Við sem ekkert eigum öllum gefum þó
drýgjum starfsins dáðir, drögum björg úr sjó-

við sem óðal eigum hjá örbirgð, stiti og þraut
og höfum kvöl að kodda og kvíða að rekkjunaut-

við með námið nauma en nóg af kreddutrú,
sem færir öðrum auðinn en okkur sult í bú-

við sem ólum ungbörn og eftir skamma hríð
héðan brott þau hrifu hungur eða stríð-

við skulum harma hefna og herða þrek í sál.
Hvessum brandinn bræður. Brýnum viljans stál!

Við sem ekkert eigum öllum gefum þó
Drýgjum starfsins dáðir, drögum björg úr sjó.

Lag: Lillebjörn Nilsen
Texti: Rudolf Nilsen
Íslenskun: Karl Ísfeld og Þórarinn Hjartarson

15. Lestin (Το τρένο φεύγει στις οχτώ)

Um átta leggur lest af stað,
sem leiftur senn hún burtu þýtur.
En í þér vakna aftur hlýtur
endurminningin um það
er eitt sinn lagði lest af stað,
og henni upp í hug þér skýtur
á haustin þegar syrtir að.

Ég sá þig eitt sinn yfir skál,
með ouzo-glas þú stóðst við barinn.
Og núna þegar þú ert farinn,
í þögn þú berð þitt leyndarmál
sem einnig geymir önnur sál.
Og núna þegar þú ert farinn
í þögn þú berð þitt leyndarmál.

Um átta lagði lest af stað,
en enginn beið við brautarpallinn.
Í blóði þínu lástu fallinn.
Þeir hæfðu þig í hjartastað,
í hjarta þínu rýtingsblað.
Og enginn beið við brautarpallinn.
Í blóði þínu lástu fallinn.

Lag og texti: Mikis Theodorakis
Íslenskun: Kristján Árnason

16. Á ströndinni (Στο περιγιάλι)

Niðri á sjávarströnd við undum ein.
Ljómandi dagur umvafði allt.
Og þorstinn kom,
þegar sólin hæst á himninum skein,
hafið var því miður of salt.

Ofan í sandinn fingur teygðust tveir.
Tveim fingrum nafn hennar skráð.
Sem betur fer
fór að blása af hafi svalandi þeyr
og  burt með honum letrið var máð.

Lag og texti: Mikis Theodorakis
Íslenskun: Kristján Árnason

17. Bella ciao

Í rauðabítið ég reis á fætur.
O bella ciao, bella ciao, bella ciao ciao ciao.
Í rauðabítið ég reis á fætur,
Er ruddist óvinurinn fram.

Ó skæruliðar ég skal með ykkur.
O bella ciao, bella ciao, bella ciao ciao ciao
Ó skæruliðar ég skal með ykkur.
Ég skynja dauðann færast nær.

Ef að fell ég í frelsisstríði.
O bella ciao, bella ciao, bella ciao ciao ciao
Ef að fell ég í frelsisstríði
Þið finnið hvílu minni stað.

Ef hvíla fæ ég í fjallsins hlíðum.
O bella ciao, bella ciao, bella ciao ciao ciao
Ef hvíla fæ ég í fjallsins hlíðum
Þá fagurt vaxa mun þar blóm.

Og fólk mun síðar er sér það blómið.
O bella ciao, bella ciao, bella ciao ciao ciao
Og fólk mun síðar er sér það blómið
Segja við mig “che bel fior!”

Því skæruliðans er litla blómið.
O bella ciao, bella ciao, bella ciao ciao ciao
Því skæruliðans er litla blómið
Er líf sitt fyrir frelsið gaf.

Lag: Alla mattina appena alzata (ítalskar mondinur)
Texti: ókunnur (ítalskir skæruliðar)
Íslenskun: Þorvaldur Þorvaldsson

18. Til átaka

Vinnulýður verk þín bíður,
vörn og sókn hins snauða manns.
Sæktu glaður, sameinaður
sigra þína í greipar hans
sem að þjáði þig og smáði,
þínum börnum örbirgð skóp.
Láttu gjalla um landsbyggð alla
lýðsins sterka sigur-óp.

Lag: Hallgrímur Jakobsson
Texti: Stefán Ögmundsson

19. Blásið til sóknar (Der heimliche Aufmarsch)

Það er hvíslað í hverju landi,
hvað er það, verkamenn?
Það eru herskáir heimsvaldasinnar,
hlustið á, verkamenn!
Auðhringar bæði og iðnjöfrar makka,
arðræningjarnir í klíkunum,
safnandi liði um veröldu víða:
Í víking gegn Sovétríkjunum!

Verkamenn, bændur, vopn ykkar mundið,
verjist nú sveinar og fljóð!
Fasista ræningjafylkingum sundrið,
funi hver bringa af móð!
Af geirunum dreyrrauðir gunnfánar blakta,
glymja um verksmiðjur heróp og köll.
Úr rjúkandi auðvaldsins rústum vér sjáum
rísandi framtíðar ódáinsvöll!
Úr rjúkandi auðvaldsins rústum vér sjáum
rísandi framtíðar ódáinsvöll!

Félagi, sjá: Þeir fylkja hernum,
fnasandi og grenjandi um kynstofnsins rétt!
Þetta er atlaga heimsins herra,
gegn hungraðri, kúgaðri öreigastétt!
Trompetablásturinn, trumburnar þungu,
eiga að traðka byltinguna undir hæl!
Sem öskrandi bylur fer stríðið um storð,
stríðið gegn þér, börðum þræl!

Verkamenn, bændur ...

Lag: Hanns Eisler
Texti: Erich Weinert
Íslenskun: Vésteinn Valgarðsson

20. Rauði sjóliðinn

Sjá nóttin er flúin það eldar í austri.
Rís upp, það er dagur í sýn.
Það glymur um sæinn og svarrar í strönd
rauði sjóliði, kallið til mín.

Til úrslita atlögu drengir,
frá útveri smiðju og höfn.
Með hertáknið blóðrauða heimskauta milli
um hauður og freyðandi dröfn.

Við börn þeirrar stéttar, sem stritaði og leið
en hlaut steina og sár fyrir brauð.
Við sýnir þess hafs, sem í hamförum ól
okkar hug til að fanga sinn auð.

Til úrslita atlögu drengir...

Í vestrinu byltinga brotsjóar rísa
gegn böli og vaxandi neyð.
Í austrinu reistum við ráðstjórnar vitann
Þann rauða, sem vísar oss leið.

Til úrslitaatlögu drengir...

Lag: rússneskt þjóðlag
Íslenskun: Jón Rafnsson

21. Thälmann-fylkingin (Die Thälmann Kolonne)

Heiður Spánarhiminn stjörnur breiðir
um helga jörð og okkar lága skjól.
Morgunn heilsar, götur stríðsins greiðir.
Við göngum móts við nasistanna fól.

Því veröld vor er
í víðheimi hér.
Við erum fólkið sem fórnina ber, - frelsið ver.

Við hræðumst hvergi neinn fasistafjanda
þótt fylli hann loftið enn með kúlnahríð.
Traustir félagar allt umhverfis standa
og undanhald er fjarlægt okkar lýð.

Því veröld vor er
í víðheimi hér.
Við erum fólkið sem fórnina ber, - frelsið ver.

Rymja trumbur lúðrar harðir hljóma,
við höldum þétt til sigurs kappar enn.
Fánar blakta frelsistónar óma
og fram við sækjum, allir Thälmanns menn.

Því líf okkar er
í víðheimi hér.
Við erum fólkið sem fórnina ber, - frelsið ver.

Lag: Paul Dessau
Texti: Karl Ernst
Íslenskun: Eyvindur P. Eiríksson

22. Söngur um samstöðu (Solidaritätslied)

Viðlag:
Áfram, og gleymum aldrei,
vort afl fæst með samtöðu.
Bæði í hríð og blíðu
baráttan ein mun styrkja
okkar stéttareiningu.

Fram, þú mikli múgur heimsins.
Málstað sannan eigum við.
Okkar verður auður jarðar
ef við berjumst hlið við hlið.

Viðlag

Hvítir, gulir, blakkir, brúnir
Berjið ei hver öðrum á.
Ekki fyrr en fjöldinn ræður
Friði okkar jörð mun ná.

Viðlag

Enn mun okkar sigri seinka
sért þú ei við okkar hlið.
Ef þú svíkur eigin bróður
ósigurinn blasir við.

Viðlag

Valhafarnir von’ að sundrung
Veiki okkar stéttarstríð.
Ef ekki vorar deilur dvína
Drottna þeir um alla tíð.

Viðlag

Öreigar um alla veröld.
Okkar þarf að brjóta bönd.
Alþýðan mun ánauð rifta
ef hún tengir hönd við hönd.

Áfram, en gleymum aldrei,
Átökin verða hörð.
Kall okkar tíma kveður:
“Hver eignast morgundaginn?
Hver eignast þessa jörð?”

Lag: Hanns Eisler
Texti: Bertolt Brecht
Íslenskun: Þórarinn Hjartarson

23. Söngur um samfylkingu (Einheitsfrontslied)

Maðurinn er mennskur
Og mat verður hann því að fá.
Það lifir enginn til lengdar af 
sem loforðum nærist á.

Viðlag:
Fylg oss félagi
Fylkjum liði í dag
Undir merki hins arðrænda manns,
í vaxandi baráttu verkalýðs
og vopnið er samfylking hans.

Maðurinn er mennskur
og mun ei láta troða sér á.
Það kæfir ei undirokun nein
hans eilífu frelsisþrá.

Viðlag

Þú ert öreigi og af því
annar ei bætir þinn hag.
Treystu því aðeins á eiginn mátt
og öreiga bræðralag.

Viðlag

Lag: Hanns Eisler
Texti: Bertolt Brecht
Íslenskun: Þórarinn Hjartarson

24. Söngur verkalýðsæskunnar

Við förum fylktu liði
í fylgd með okkar stétt.
Við söfnumst nú til sóknar
að sækja hennar rétt.
Við erum starfsins æska,
við eigum hennar styrk og þor.
Í okkar hug og höndum
er heimsins bjarta vor.

Lag: rússneskt þjóðlag
Íslenskun: Jón Rafnsson

25. Fánasöngur

Kvað við uppreisnarlag, lýst’ af öreigans brá
þegar árgolan snerti þinn fald.
Þú varst frelsisins tákn sem að treystum við á.
Nú var takmarkið réttur og vald.
Og þú beindir oss leið gegnum skugga og skin
þar sem skiptast á ylur og gjóst.
Þig við lærðum að elska og virða sem vin
og að verja okkar fylkingarbrjóst.

Láttu allsstaðar gjalla þinn uppreisnarsöng
frá unnum að háfjallabrún,
og vér heitum að fylkja oss fast um þá stöng
þar sem fáni vor blaktir við hún.

Þegar daprast oss gangan við ellinnar ár,
þegar opnast hin síðustu skjól,
signdu blóðrauði fáni vor héluðu hár
undir hækkandi öreigasól.
Lát á blóðrauðum grunni þá bera við ský
okkar blikandi hamar og sigð.
Fylltu vetrarins heim þínum voraldar gný,
til að vekja um gjörvalla byggð

Láttu allsstaðar gjalla...

Lag: Hallgrímur Jakobsson
Texti: Jón Rafnsson

26. Rauði fáninn (The Red Flag)

Þú fáni ert sem fólksins blóð
og ferill þinn er kappaslóð.
Þig signdi dreyrug dauðastorð
í dreyra sem er lífsins orð.

Því rís þú fáni himinhátt!
Vér helgum þér vort líf og mátt.
Þótt hugleysingjar hopi frá
vér hinir skulum sigri ná.

Þú blaktir yfir bernskuþrá ,
Er birtan var oss tekin frá.
Þú lifðir ógnir, lifðir dáð
og lit þinn getur ekkert máð.

Því rís þú fáni...

Það svella um þig sigurhljóð.
Það sveima um þig sigurljóð.
Þú bjarta merki mikla spá
um  mannréttindi og frelsisþrá.

Því rís þú fáni...

Lag: O Tannenbaum (Ó jólatré)
Texti: Jim Connell
Íslenskun: ókunnur

27. Hver eykur gullsins gnægðir?

Hver eykur gullsins gnægðir
og gefur auðnum völd?
Hver byggir glæstar borgir,
En ber hin þyngstu gjöld?
Hver gefur auðkýfingum auð,
En ávallt lifir þó við nauð?
Það er hin sífellt þrælandi
öreiganna stétt.
Það er hin sífellt þrælandi
öreiganna stétt.

Hver ber þær þyngstu byrðar
hinn bjarta langa dag?
Hver veitir öðrum allsnægt
og auðgar þeirra hag?
Sem alltaf gengur alls á mis
en ötult leitar jafnréttis?
Það er hin sífellt þrælandi
öreiganna stétt.
Það er hin sífellt þrælandi
öreiganna stétt.

Fram með rauða fánann
og fylkum okkur þétt.
Við berjumst fyrir frelsi
og fyrir okkar rétt.
Þessi jörð skal færa os frið,
og farsæld bakvið stríðsins svið.
Þá erum við hin sigrandi
öreiganna stétt.
Þá erum við hin sigrandi
öreiganna stétt.

Lag og texti: Andreas Hofer
Íslenskun: ókunnur

28. Joe Hill

Mig dreymdi í nótt ég sá Joe Hill,
hinn sanna verkamann.
„En þú ert löngu látinn, Joe?“
„Ég lifi,“ sagði hann.
„Ég lifi,“ sagði hann.

„Í Salt Lake City,“ sagði ég,
„þar sátu auðsins menn
og dæmdu þig að sínum sið.“
„Þú sérð ég lifi enn.
Þú sérð ég lifi enn!“

„En Joe, þeir myrtu,“ mælti ég,
„þeir myrtu skutu þig.“
„Þeim dugar ekki drápsvél nein.
Þeir drepa aldrei mig.
Þeir drepa aldrei mig.“

Sem lífsins björk svo beinn hann stóð.
Og bliki úr augum sló.
„Þeir skutu.“ sagði'ann, „skutu mig.
En skot er ekki nóg.
En skot er ekki nóg!“

„Joe Hill deyr aldrei!“ sagði hann.
„Í sál hvers verkamanns
hann kveikti ljós, sem logar skært.
Þar lifir arfur hans.
Þar lifir arfur hans!“

Frá Íslandi til Asíu,
frá afdal út á svið
þeir berjast fyrir betri tíð.
Ég berst við þeirra hlið.
Ég berst við þeirra hlið!

Mig dreymdi í nótt ég sá Joe Hill,
hinn sanna verkamann.
„En þú ert löngu látinn Joe?“
„Ég lifi,“ sagði hann.
„Ég lifi,“ sagði hann.

Lag: Paul Robeson
Texti: Alfred Hayes
Íslenskun: ókunnur